Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag
Fuglatalningarsvæðin við norðanvert Snæfellsnes eru hér merkt með bláum lit.

Árleg vetrarfuglatalning fór fram á norðanverðu Snæfellsnesi í fyrri hluta janúar. Talsvert fuglalíf var víða á svæðinu eins og áður, þótt ekki jafnist það á við mergðina sem náði hámarki veturna 2011-2014 í tengslum við vetursetu sumargotssíldarinnar í Breiðafirði.

Að þessu sinni sáust 14.597 fuglar af 38 tegundum (1. tafla) á þeim 15 svæðum sem talin voru á norðanverðu Snæfellsnesi (1. mynd), sem er svipað og fyrir ári síðan. Eins og oft áður var æðarfugl algengasta tegundin en þar á eftir komu máfarnir hvítmáfur, bjartmáfur og svartbakur, ásamt tjaldi og stokkönd. Óvæntustu fuglarnir að þessu sinni voru tvær heiðlóur sem ílenst hafa í hlýindum haustsins og 10 ungir ernir sem sátu saman í litlum hólma við Stykkishólm. Samtals sáust 26 ernir, sem er með mesta móti. Þar af voru 19 við Stykkishólm. Þá voru lómar margfalt fleiri en áður.

Fuglategundirnar 38 sem sáust í vetrarfuglatalningu á Snæfellsnesi, raðaðar eftir fjölda. Af 10 algengustu tegundum voru þrjár máfategundir og þrjár andategundir.

Þegar skoðaður er samanlagður fjöldi fugla á 11 talningarsvæðum á norðanverðu Snæfellsnesi (2. mynd), sem talin hafa verið árlega frá því um jólin 2009, sést gríðarleg sveifla sem náði hámarki um jólin 2012 eða á milli fyrri og seinni síldardauðans í Kolgrafafirði. Fuglalífið núna virðist vera nær því sem telja megi í „venjulegu“ ástandi, sem sést vel þegar horft er á heildarfjölda fugla við Kolgrafafjörð á árunum 2000-2016 (3. mynd).

Talsverðar breytingar hafa orðið hjá ýmsum tegundum frá því í hámarkinu. Meginhluti sveiflunnar skýrist þó af því að mikill fjöldi svartbaka og hvítmáfa kom inn á svæðið til að gæða sér á síld en hefur nú horfið aftur til annarra svæða.

2. mynd. Samanlagður fjöldi fugla á 11 talningarsvæðum á norðanverðu Snæfellsnesi sem talin voru öll árin frá 2009-2016. Ártal er miðað við jól en talningar fara fram í lok desember eða byrjun janúar.
3. mynd. Samanlagður fjöldi fugla við Kolgrafafjörð og Hraunsfjörð 2000-2016. Ártal er miðað við jól en talningar fara fram í lok desember eða byrjun janúar.

Talningarfólk á Snæfellsnesi (talin svæði í sviga): Ari Bent Ómarsson (V15), Árni Ásgeirsson (V4, V17, V18), Daníel Bergmann (V1, V2, V3, V9, V10, V11, V12), Guðrún Lára Pálmadóttir (V14), Helgi Guðjónsson (V8), Jón Einar Jónsson (V4, V17, V18), Lúðvík Smárason (V15, V16), Óli Sverrir Sigurjónsson (V9), Róbert A. Stefánsson (032, V1, V2, V3, V9, V10, V11, V12), Smári Lúðvíksson (V8), Sæmundur Kristjánsson (V16), Sævar Friðþjófsson (V8).

Nánari upplýsingar um vetrarfuglatalninguna má finna á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, http://www.ni.is/greinar/vetrarfuglatalningar.