Lógó Náttúrustofu Vesturlands
Breski fáninn/British flag

Út er komin skýrsla Náttúrustofu Vesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi um skráningu á fuglalífi á Snæfellsnesi og í Dölum og möguleikum sem felast í fuglatengdri ferðaþjónustu á svæðinu. Snæfellsnes og Breiðafjörður eru rík af fuglalífi og er ljóst að þegar kemur að fuglaskoðun er hér um vannýtta auðlind að ræða.

Fuglaskoðun er ört vaxandi áhugamál í heiminum og er Ísland engin undantekning. Talið er að yfir 150 þúsund innlendir og erlendir ferðamenn hafi skoðað fugla á ferðum sínum um Ísland árið 2008 og er líklegt að umfang fuglatengdrar ferðaþjónustu eigi eftir að aukast verulega á komandi árum. Mörg ónýtt tækifæri eru á þessu sviði til markaðssetningar svæða á Íslandi. Hins vegar er víðast hvar skortur á stöðluðum skráningum fuglalífs sem nýtast við kynningu svæða til fuglaskoðunar. Verkefni Náttúrustofunnar og Háskólasetursins fólst í að bregðast við þessu og útvega upplýsingar sem ferðaþjónustan gæti nýtt sér.

Fuglar voru taldir á helstu ferðamannaleiðum um Snæfellsnes og Dali í fimm athugunarferðum yfir sumartímann, frá fyrri hluta maí og fram undir miðjan ágúst. Í talningunum sáust 70 tegundir fugla, þar af 61 tegund (af 77 alls) íslenskra varpfugla. Að jafnaði var styttra á milli álitlegra fuglaskoðunarstaða á Snæfellsnesi en í Dölum og meiri fjölbreytni búsvæða fyrir fugla. Líkur á að sjá haförn voru mestar í nágrenni við Klofning í Dalasýslu og í Suðureyjasiglingu Sæferða frá Stykkishólmi. Vænlegasti tími til fuglaskoðunar var í maí og júní, þ.e.a.s. áður en aðalstraumur ferðamanna um Ísland hefst, sem virðist fela í sér tækifæri til lengingar ferðamannatímans og þar með styrkingu rekstrargrunns ferðaþjónustunnar á svæðinu. Aðalafurð verkefnisins eru grunnupplýsingar um fuglalíf á svæðinu og verður miðlað til ferðaþjónustunnar, sem mun geta notfært sér niðurstöður þess til að auðvelda leiðsögn jafnt sem fræðslu til starfsmanna sinna og ferðamanna. Nú er leitað fjármagns til að halda verkefninu áfram með gerð vefsíðu, bæklings o.s.frv. sem nýtist ferðaþjónustunni og hinum almenna fuglaskoðara.

Í skýrslunni má finna ítarlegar upplýsingar um fuglalíf svæðisins; einnig lýsingu á staðháttum og fuglalífi 11 undirsvæða.

Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og Vaxtarsamningi Vesturlands.

1. mynd. Athugunarsvæðið á Snæfellsnesi og í Dölum (bleikt og fjólublátt) var meðfram helstu vegum og í siglingu um Suðureyjar Breiðafjarðar. Litaskipti aðgreina undirsvæði.